Sagan

Það var á haustdögum 2000 að nokkrir ungir bjartsýnismenn veltu fyrir sér að stofna knattspyrnufélag sem tæki þátt í Íslandsmóti. Þá um haustið höfðu þeir félagarnir lent í öðru sæti í sunnlensku utandeildinni með liði sínu. Liðið hét Lesbískir mávar. Stofnfundur Knattspyrnufélags Árborgar var haldinn á Selfossi þann 5. nóvember 2000. Stofnfélagar voru 24 talsins. Á fundinum var fyrsta stjórn félagsins kosin og hafa litlar breytingar orðið á henni síðan þá.

Fyrsta verk stjórnar var að ráða þjálfara. Til starfsins var ráðinn Sigurður B. Jónsson, sjúkranuddari í Hveragerði, reyndur leikmaður m.a. með ÍA, KR og FH. Árborg hóf keppni á Íslandsmótinu innanhúss 2001 í 4. deild. Það er skemmst frá því að segja að liðið sigraði alla sína leiki, lauk keppni með markatöluna 21-5 og færðist upp um deild. Á Íslandsmótinu utanhúss 2001 lauk liðið keppni í 4. sæti B-riðils 3. deildar með 13 stig og þótti það viðunandi árangur á fyrsta ári félagins í Íslandsmóti. Félagið komst í 32-liða úrslit Coca-Cola bikars KSÍ en féll naumlega úr keppni eftir tap gegn 1. deildarliði Stjörnunnar í mjög eftirminnilegum leik. Um haustið var Árborg héraðsmeistari í meistaraflokki karla.

Í janúar 2002 keppti Árborg enn á ný innanhúss og fór aftur taplaust gegnum mótið og rakleiðis upp í 2. deild með markatöluna 21-3. Um vorið stóð félagið fyrir deildarbikarkeppni 3. deildarliða ásamt Ægismönnum. Þar varð Árborg í 2. sæti með jafnmörg stig og Bruni, sem sigraði. Íslandsmótið utanhúss hófst síðan í maí og lauk liðið keppni í 3. sæti A-riðils 3. deildar með 23 stig. Stefnan var sett á úrslitakeppni deildarinnar en það takmark náðist ekki. Liðið komst ekki á skrið í upphafi móts og munaði í lokin 5 stigum á Árborg og KFS sem fór í úrslitakeppnina ásamt Fjölni. Bæði þessi lið fóru síðan upp í 2. deild. Árborg féll úr keppni í fyrstu umferð Coca-Cola bikars KSÍ þegar liðið tapaði 4-1 fyrir U23 ára liði Þróttar Rvk. Varð héraðsmeistari annað árið í röð. Í desemberbyrjun var síðan aftur haldið á Íslandsmótið innanhúss þar sem liðið hélt sæti sínu í næst efstu deild en vann aðeins einn sigur í þremur leikjum og lauk þar með óslitinni sigurgöngu liðsins innanhúss. Sigurður B. var í brúnni árið 2002 og var endurráðinn fyrir tímabilið 2003.

Árið 2003 hóf Árborg leik með því að tryggja sér Inghólsbikarinn, eftir harða keppni við Skallagrím. Að hausti var síðan HSK meistaratitillinn í húsi, þriðja árið í röð. Þetta voru einu afrek liðsins á árinu því gengið í Íslandsmótinu var ekki samkvæmt væntingum. Liðið gerði jafntefli í tveimur fyrstu leikjunum og eyddi því sumrinu í að elta efstu liðin, Leikni og Reyni. Þrátt fyrir að lenda aðeins í 4. sæti var Árborg eina liðið sem sýndi toppliðunum almennilega samkeppni. Tap gegn Hamri og jafntefli við Afríku voru úrslit sem gerðu ekkert til að hífa okkur upp töfluna. Liðið féll úr leik í 1. umferð bikarkeppninnar eftir tap gegn Víði. Ný fjáröflun var uppi á borðinu en Árborg sá um hátíðina Sumar á Selfossi og heppnaðist afskaplega vel. Í lok árs var ráðinn nýr þjálfari til félagsins, Páll Guðmundsson, margreyndur kappi sem lék m.a. með Leiftri, ÍBV og ÍA. Fyrsta verkefni hans var að fara með liðið á Íslandsmótið innanhúss þar sem Árborg vann ekki leik og féll niður í 3. deild.

Árið 2004 náði liðið sínum besta árangri á Íslandsmótinu. Árborg lauk keppni í 3. sæti A-riðils 3. deildar, aðeins tveimur stigum frá úrslitasæti. Liðið lék vel þegar líða tók á sumarið og var með í baráttunni fram í lokaumferðina. Árborg féll úr keppni í VISA-bikarnum í 32-liða úrslitum eftir framlengdan og mjög eftirminnilegan leik gegn Gróttu á Seltjarnarnesi. Liðið hélt vormót fyrir 3. deildarliðin, HM-bikarinn og hafnaði þar í 2. sæti á eftir Gróttu. HSK bikarinn var líka í húsi, fjórða árið í röð, en nú eftir óvenju harða keppni. Árborg keppti fyrir hönd HSK á Landsmóti UMFÍ. Uppskeran var 6. sætið en liðið vakti athygli fyrir skemmtilega framkomu innan vallar sem utan þar sem léttleikinn var í fyrirrúmi. Stærstu fjáraflanir þessa árs var Sumar á Selfossi og þökulagning í Fosslandi. Árborgarinn kom út að venju og vakti mikla lukku eins og alltaf.

Anno horribilis, eða árið 2005. Liðið byrjaði illa í deildarbikarnum og vann ekki leik frekar en fyrri daginn, en var í sterkum riðli. Liðið féll úr leik í 1. umferð VISA-bikarsins eftir bráðabana í vítaspyrnukeppni gegn Hvíta riddaranum. Liðinu gekk síðan afleitlega í upphafi Íslandsmótsins og var aðeins með þrjú stig eftir fyrri umferðina. Liðið hysjaði upp um sig buxurnar í síðari umferðinni og tapaði aðeins tveimur leikjum, gegn Reyni og Sindra sem bæði fóru upp í 2. deild. Liðið glataði síðan HSK-bikarnum eftir fjögurra ára sigurgöngu og hlaut bronsverðlaun í mótinu. Að loknu tímabilinu var Sigurður Einar Guðjónsson, fyrrum leikmaður liðsins, ráðinn þjálfari. Hans fyrsta verkefni var Íslandsmótið innanhúss þar sem liðið náði sínum besta árangri og hélt sæti sínu í B-deild. 

Árið 2006 rétti liðið töluvert úr kútnum undir stjórn nýs þjálfara. Í deildarbikarnum vann liðið sinn fyrsta leik og lauk leik í 2. sæti riðilsins í C-deildinni. Í VISA-bikarnum vann liðið stórsigur á Hrunamönnum í 1. umferð en féll svo úr leik í 2. umferð eftir spennandi leik við ÍR-inga á útivelli. Liðið fór að venju hægt af stað á Íslandsmótinu en tapaði aðeins einum leik í síðari umferðinni og vann sögulega sigra. Liðið lauk leik í 5. sæti B-riðils. Á Íslandsmótinu innanhúss hélt liðið sæti sínu í B-deild í fyrsta skipti. Þjálfarasamningur við Sigurð Einar var endurnýjaður og Jóhann Bjarnason, fyrirliði til margra ára, ráðinn inn í þjálfarateymið.

Árið 2007 hófst að venju á deildarbikar, sem nú kallaðist Lengjubikarinn. Árborg varð í 3. sæti í jöfnum riðli. Um miðjan apríl sagði Sigurður Einar upp störfum af persónulegum ástæðum og Jóhann Bjarnason tók alfarið við þjálfun liðsins.

Stærstu fjáraflanir félagsins, fyrstu árin, voru útplöntum á trjám í samstarfi við Suðurlandsskóga. Þar hafa leikmenn og stuðningsmenn nú plantað samtals 75.000 plöntum á fjórum jörðum á Suðurlandi. Þá er árlega haldinn stuðningsmannadansleikur þar sem fram kemur fjöldi hljómsveita. Auk þess gefur félagið út kynningarblað, Árborgarann þar sem styrktaraðilar félagsins eru kynntir. Síðustu fjögur ár hefur stærsta fjáröflun félagins verið umsjón með hátíðinni Sumar á Selfossi. Undir stjórn Árborgara hafa hátíðarhöldin farið vaxandi ár frá ári og fest sig í sessi hjá bæjarbúum.

Leikmaður ársins
2001 Sigurður Einar Guðjónsson
2002 Njörður Steinarsson
2003 Theodór Guðmundsson
2004 Jakob Björgvin Jakobsson
2005 Jóhann Bjarnason
2006 Helgi Bárðarson
2007 Örvar Rafn Hlíðdal

Markahæsti leikmaður
2001 Þórður Jóhann Guðmundsson 7 mörk
2002 Njörður Steinarsson 14 mörk
2003 Theodór Guðmundsson 12 mörk
2004 Jóhann Bjarnason 8 mörk
2005 Jóhann Bjarnason 6 mörk
2006 Atli Marel Vokes 9 mörk
2007 Jóhann Bjarnason 7 mörk

Bjartasta vonin
2001 Guðmundur Garðar Sigfússon
2002 Guðmundur Garðar Sigfússon
2003 Árni Sigfús Birgisson
2004 Jakob Björgvin Jakobsson
2005 Einar Ingi Jónsson
2006 Gunnar Sigfús Jónsson
2007 Örvar Rafn Hlíðdal

Félagi ársins
2001 Sigurjón Laufás Ólafsson
2002 Ólöf Björnsdóttir
2003 Jóhanna Sigríður Hannesdóttir
2004 Alma Sigurjónsdóttir
2005 Leifur Viðarsson
2006 Marinó Fannar Garðarsson
2007 Már Ingólfur Másson

Varnarmaður ársins
2001 Sigurður Einar Guðjónsson
2002 Sigurður Einar Guðjónsson
2003 Garðar Guðmundsson
2004 Gunnar Ingi Guðmundsson
2005 Jóhann Bjarnason 
2006 Jóhann Bjarnason
2007 Örvar Rafn Hlíðdal

Miðjumaður ársins
2001 Þórhallur Reynir Stefánsson
2002 Njörður Steinarsson
2003 Guðmundur Ármann Böðvarsson
2004 Jakob Björgvin Jakobsson
2005 Jakob Björgvin Jakobsson
        Helgi Bárðarson
2006 Helgi Bárðarson
2007 Helgi Bárðarson

Sóknarmaður ársins
2001 Þórður Jóhann Guðmundsson
2002 Njörður Steinarsson
2003 Theodór Guðmundsson
2004 Guðmundur Ármann Böðvarsson
2005 Jóhann Bjarnason
2006 Guðmundur Ármann Böðvarsson
2007 Jóhann Bjarnason

Mark ársins
2001 Ekki valið
2002 Njörður Steinarsson gegn KFS e. 6 sek.
2003 Jóhann Bjarnason gegn Hamri
2004 Þorsteinn Marinósson gegn Deiglunni
2005 Stefán Örn Guðmundsson gegn Hamri
2006 Guðmundur Ármann Böðvarsson gegn BÍ/Bolungarvík
2007 Stefán Örn Guðmundsson gegn KFR

Uppfært 21. ágúst 2007

Stærsti sigur: 14-0 gegn Létti á Selfossvelli, 2. ágúst 2006.

Stærsta tap: 0-13 gegn Breiðablik í Fífunni 28. apríl 2003.

Markahæstir: 
Guðmundur Ármann Böðvarsson, 37
Jóhann Bjarnason, 33
Theodór Guðmundsson, 31
Guðmundur Garðar Sigfússon, 24
Stefán Örn Guðmundsson, 24

Flest mörk í leik: 
Jóhann Bjarnason, 6 mörk gegn Frey 14. ágúst 2004.

Lengst haldið hreinu: 
Sigurður Einar Guðjónsson. 189 mínútur frá Ægir-Árborg 16. ágúst 2003 til Árborg-Ýmir 23. maí 2006.

Leikjahæstu menn:
Jóhann Bjarnason, 105 leikir, 8406 mín.
Guðmundur Garðar Sigfússon, 96 leikir, 6868 mín.
Theodór Guðmundsson, 91 leikir, 7591 mín.
Guðmundur Ármann Böðvarsson, 90 leikir, 7001 mín.
Stefán Örn Guðmundsson, 78 leikir, 6809 mín.

Oftast í byrjunarliði í röð:

Stefán Örn Guðmundsson 33 leikir (frá 24/6/04 – 18/5/06)
Theodór Guðmundsson 33 leikir (frá 18/5/07 – )
Jakob Björgvin Jakobsson 32 leikir (frá 24/5/04 – 25/3/06)
Þórhallur Reynir Stefánsson 20 leikir (frá 6/7/01 – 30/7/02)
Jóhann Bjarnason 20 leikir (frá 29/4/06 – 21/4/07)

Elsti leikmaðurinn sem leikið hefur með Árborg er Ámundi Sigmundsson en hann var 42 ára og 4 mánaða þegar Árborg tók á móti Deiglunni þann 9. júní 2004.

Yngsti leikmaðurinn er hins vegar Ingimar Helgi Finnsson. Hann var 16 ára, 7 mánaða og 15 daga gamall þegar hann lék sinn fyrsta leik með Árborg gegn KFS 23. apríl 2005. Þess má geta að hann hafði ekki leikheimild með Árborg en var skráður í Ægi.

Fyrsta mark Árborgar skoraði Bjarni Sigurðsson gegn ÍH 2001. Bjarni skoraði einnig fyrsta deildarmarkið, gegn Reyni 2001. Árni Sigfús Birgisson skoraði 100. mark félagsins gegn Ægi 2003 og Atli Rafn Viðarsson skoraði 100. deildarmarkið gegn Frey 2003. Guðmundur Ármann Böðvarsson skoraði 200. mark félagsins gegn Hrunamönnum 2006 og Jakob Björgvin Jakobsson skoraði 200. deildarmark félagsins gegn KFR 2007.

Gestur Guðjónsson fékk áminningu eftir 30 sekúndna leik gegn ÍH þann 20. júlí 2001. Hann kom inná á 25 mínútu.

Bjarni Sigurðsson er sá leikmaður Árborgar sem hefur verði fljótastur að næla sér í rautt spjald. Hann fékk beint rautt á 87. mínútu leiks Bruna og Árborgar þann 26. júní 2002 eftir að hafa verið inná í 12 mínútur.  

Árni Sigfús Birgisson á þann vafasama heiður að fá flest spjöld á einu tímabili. Árni fékk 7 gul spjöld í 11 leikjum árið 2003, eða 0,63 spjöld í leik. Fast á hæla hans kemur Sólon Morthens sem fékk 7 gul í 12 leikjum árið 2001, eða 0,58 spjöld í leik. Ívar Grétarsson er á svipaðri línu með 4 gul í 7 leikjum 2003, eða 0,57 spjöld í leik. Þessar tölur verða vonandi aldrei "bættar".

Njörður Steinarsson skoraði þegar 6 sekúndur voru liðnar af leik Árborgar og KFS þann 13. ágúst 2002. Það var jöfnun á Íslandsmeti.

Bjarni Sigurðsson reyndi að komast í skó Njarðar gegn Afríku þann 21. júní 2003. Bjarni skoraði eftir 18 sekúndna leik. Theodór Guðmundsson skoraði einnig á fyrstu mínútu leiks Árborgar og ÍH þann 17. júlí 2003, eftir 47 sek og Guðmundur Garðar Sigfússon skoraði eftir 59 sekúndur gegn Afríku þann 28. maí 2004.  

Það tók Gunnar Sigfús Jónsson aðeins 6 sekúndur að skora í leik gegn Afríku þann 22. apríl 2006. Gunnari var skipt inná á 62. mínútu meðan beðið var eftir aukaspyrnu. Sigurði Einari Guðjónssyni var einnig skipt inná, hann tók spyrnuna og eftir klafs í teignum barst knötturinn á höfðið á Gunnari sem stangaði hann í netið með sinni fyrstu snertingu. Líklega er um skiptingu aldarinnar að ræða. Gunnar endurtók leikinn gegn Ými 27. júlí 2006 eftir skiptingu á 66. mínútu og skoraði eftir 39 sekúndur. 

Björn Daði Björnsson er eini leikmaður Árborgar sem hefur fengið tiltal frá dómara vegna málfræðibrots en Gísli Hlynur Jóhannson, landsdómari, leiðrétti meinlega villu Búna í leik Árborgar og Reynis þann 11. júlí 2003. “Hann hengur í honum!” kallaði Búni af varamannabekknum, inn á völlinn. – “Hann hangir!” svaraði Gísli og flautaði ekki.  

Í leik Árborgar og Hamars á Eyrarbakkavelli þann 27. maí 2005 voru í fyrsta skipti þrjú tvíburapör í liði Árborgar. Þetta voru Helgi og Hlynur Bárðarsynir, Stefán og Gunnar Guðmundssynir og Einar og Gunnar Jónssynir. Allir komu þeir við sögu í leiknum og stóðu sig með prýði. Í liðsstjórninni var síðan Már I. Másson þannig að segja má að í hópi Árborgar hafi verið 6,5 tvíburar. Líklega er um Íslandsmet að ræða og vonandi heimsmet. Þessi uppákoma átti sér síðan stað í sjö öðrum leikjum yfir sumarið og fjórum leikjum árið 2006.

Annars hafa tvö pör af þremur bræðum leikið fyrir liðið í gegnum tíðina. Jens, Helgi og Hlynur Bárðarsynir og Theodór, Gunnar og Stefán Guðmundssynir.

Aðrir bræður sem leikið hafa fyrir Árborg eru Vignir Egill og Guðmundur Fannar Vigfússynir, Jóhann og Guðmundur Hannessynir og Garðar Guðmundsson og Oddsteinn Magnússon.

Þessir hafa borið fyrirliðabandið:

Jóhann Bjarnason 76 sinnum – 2002-2007
Guðmundur Ármann Böðvarsson 15 sinnum – 2007
Þórarinn B. Snorrason 13 sinnum – 2001 
Jakob Björgvin Jakobsson 7 sinnum – 2005-2007
Adolf Ingvi Bragason 3 sinnum – 2002-2004
Hafsteinn Guðmundsson 2 sinnum – 2001 
Lárus Arnar Guðmundsson 2 sinnum – 2003 
Stefán Örn Guðmundsson 2 sinnum – 2005
Atli Marel Vokes 1 sinni – 2004

Hvað vilt þú segja ?

Færðu inn athugasemd

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Þú mátt nota þessi HTML efnisorð og eiginleika: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <strike> <strong>

Líkamsfegurð, vinnuþrek, táp