Skoðun leiks
Hartmann undirbýr sig fyrir að skora fyrsta mark sumarsins. arborgfc.net/GK
Árborg tók á móti Knattspyrnufélagi Hlíðarenda í fyrsta leik sínum í 4. deildinni þetta árið. Eftir jafnan og spennandi leik var boðið upp á dramatískar lokamínútur en niðurstaðan var 3-3 jafntefli.
Leikurinn var rólegur framan af og liðin skiptust á að rúlla boltanum og fátt var um færi. Ingimar átti þó ágæta tilraun á 8. mínútu þegar markvörður KH varði skot hans úr vítateignum í stöngina. Eftir um tuttugu mínútna leik hertu Árborgarar tökin og sóttu nokkuð stíft en færin voru ekki mörg. Tommi átti stangarskot beint úr hornspyrnu og mínútu síðar vann Pelle boltann af varnarmanni og komst einn inn í teig en markvörður KH kom út á móti honum og varði vel.
Fyrsta mark leiksins kom þvert gegn gangi leiksins á 37. mínútu. Há aukaspyrna inn á vítateiginn þar sem Einar Guðni misreiknaði boltann yfir sig og á kollinn á KH-manni og þaðan í netið. Fyrsta marktilraun KH í leiknum.
En Árborgarar girtu sig í brók og tveimur mínútum síðar og það þurfti naglalakkaðann iðnaðarmann af gamla skólanum til þess að jafna en Hartmann skoraði glæsilegt skallamark eftir aukaspyrnu frá Tomma. 1-1 í hálfleik.
Hartmann opnaði síðan síðari hálfleikinn með dauðafæri þegar hann fékk frábæra stungusendingu innfyrir frá Arnari. Harti lyfti boltanum hins vegar bæði framhjá markmanninum og markinu.
Árborg komst síðan yfir á 60. mínútu með marki af dýrari gerðinni úr skyndisókn. Eiki vann boltann í öftustu línu og skallaði hann á Hartmann sem var fljótur að senda fram á Pelle. Arnar kom í yfirhlaup upp kantinn og fékk boltann þangað og snaraði honum fyrir á Tomma sem kom hlaupandi úr djúpinu og skallaði boltann glæsilega í netið. Mark ársins á Selfossi.
Áfram var barist á báða bóga og færin ekki mörg en á 70. mínútu jafnaði KH og enn og aftur kom markið úr föstu leikatriði. Hornspyrna, bang og mark. 2-2.
Eiki kom Árborg yfir aftur á 80. mínútu þegar hann hamraði vítazpyrnu af miklu öryggi í netið eftir að brotið hafði verið á Pálma í vítateignum. Eftir markið féllu Árborgarar langt til baka og KH hóf stórsókn. Jöfnunarmarkið lá í loftinu og það kom á þriðju mínútu uppbótartíma – já, úr föstu leikatriði, eftir aukaspyrnu og gríðarlega mikið klafs í vítateignum þar sem boltinn féll fyrir fætur hvers leikmannsins á fætur öðrum. Leikurinn var þó ekki alveg búinn því að á 95. mínútu fékk einn leikmanna KH rautt spjald fyrir gróft brot á Pálma og aukaspyrnan í kjölfarið reyndist síðasta færi leiksins, en hún rann út í sandinn.
Næstu leikir
Næsti leikur Árborgar er á Höfn í Hornafirði á laugardaginn en þar mæta Árborgarar Ungmennafélaginu Mána, sem eru nýliðar í 4. deildinni, en liðið er byggt upp á ungum og gömlum leikmönnum Sindra.