Toppslagur á Selfossvelli í kvöld

Toppslagur á Selfossvelli í kvöld

Atli Rafn Viðarsson í baráttu við Þróttara í deildarbikarleik liðanna árið 2012. arborgfc.net/GK

Árborg tekur á móti Þrótti Vogum í D-riðli 4. deildar karla í kvöld. Leikurinn er mjög þýðingarmikill en sigurliðið mun tylla sér í toppsæti riðilsins.

Bæði lið eru taplaus í deildinni en Þróttur er í 2. sæti riðilsins með 7 stig og Árborg í 5. sæti með 5 stig. Keppnin í riðlinum er mjög hörð og jöfn en með sigri fer Árborg upp um fimm sæti og í toppsætið.

Spá um leik

Fyrir mótið var Þrótti spáð efsta sætinu í riðlinum og ekki að furða þar sem þar er valinn maður í hverju rúmi. Meðal eftirtektarverðustu leikmanna liðsins eru Páll Guðmundsson, Emil Daði Símonarson og Reynir Þór Valsson. Þróttur rúllaði yfir Skínanda í síðustu umferð á meðan Árborg gerði jafntefli við Vatnaliljurnar.

Innbyrðis hafa leikir Árborgar og Þróttar verið mjög jafnir. Liðin hafa mæst fjórum sinnum í mótum KSÍ, Árborg hefur unnið tvo leiki, Þróttur einn og einu sinni hafa liðin skilið jöfn. Markatalan er 7-6, Árborg í vil, en iðnustu markaskorarar Árborgar gegn Þrótti eru Hallgrímur Jóhannsson og Hartmann Antonsson sem báðir hafa sett boltann tvívegis í netið hjá Þrótturum.

Hallgrímur er ekki í hóp í kvöld, frekar en undanfarna leiki en fulltrúar Hesta-Jóa í viðureign kvöldsins verða Arnar, Ársæll, Einar, Eiríkur, Guðmundur, Guðmundur, Hartmann, Hálfdán, Helgi, Ingimar, Kristján, Lárus, Páll, Pálmi, Pelle, Steinar, Trausti og Tómas. Snorri er í banni eftir rautt spjald í síðasta leik en hann verður væntanlega mættur í stúkuna til þess að gefa eiginhandaráritanir.

Áminning

Við minnum á að það er frítt á völlinn í kvöld í boði Bílverk BÁ og heppinn vallargestur getur gengið heim með fulla vasa af bíómiðum frá Selfossbíói.