Árborg – Vatnaliljur 1-1 (0-1)

Dómarinn lék á alls oddi en hér bregður hann sér í hlutverk uppvaknings - leikmönnum til skemmtunar. arborgfc.net/GK

Dómarinn lék á alls oddi en hér bregður hann sér í hlutverk uppvaknings – leikmönnum til skemmtunar. arborgfc.net/GK

Árborg tók á móti Vatnaliljunum á Selfossvelli þann 10. júní við bestu aðstæður en leikið var í blíðviðri á sígræna hluta Jáverk-vallarins fyrir framan 71 áhorfanda. Lokatölur urðu 1-1 í kaflaskiptum leik.

Vatnaliljurnar byrjuðu mun betur í leiknum og strax á 2. mínútu þurfti Einar að taka á honum stóra sínum en hann varði feiknavel maður á mann eftir að ein Liljanna hafði sloppið innfyrir.  Tíu mínútum síðar komust gestirnir aftur í gott færi en skot einnar Liljunnar fór yfir úr opnu færi í teignum.

Árborgurum gekk illa að spila boltanum upp völlinn og gestirnir pressuðu nokkuð stíft á köflum og áttu mun álitlegri sóknir. Gestirnir voru aftur nálægt því að skora á 29. mínútu þegar einn þeirra átti skalla eftir aukaspyrnu rétt yfir markið. Tveimur mínútum síðar var brotið illa á Dolla við vítateiginn en dómarinn gaf Vatnaliljunum aukaspyrnuna og Einar átti fullt í fangi með að verja hana yfir.

Á 34. mínútu létu Árborgarar loksins til sín taka í sókninni þegar Mummi slapp einn innfyrir og framhjá markmanninum en hann skaut svo yfir markið úr mjög þröngu færi. Fimm mínútum síðar sváfu Liljurnar á verðinum í innkasti Árborgar við vítateiginn, sem endaði með því að Tommi átti hörkuskot sem markvörður Liljanna varði vel.

Vatnaliljurnar komust svo yfir undir lok fyrri hálfleiks en á 42. mínútu fengu þeir hornspyrnu og skoruðu eftir klafs í teignum, 0-1 í hálfleik.

Síðari hálfleikurinn var jafnari og fátt um færi framan af. Þegar leið á leikinn þyngdust sóknir Árborgar nokkuð og Pálmi var nálægt því að skora á 67. mínútu þegar aukaspyrna hans utan af kanti sigldi í gegnum allan pakkann og markvörður Liljanna varði naumlega í horn. Fimm mínútum síðar skallaði Hartmann rétt yfir eftir hornspyrnu.

Á 75. mínútu jöfnuðu Árborgarar metin, brotið var á Ingimar rétt við vítateig Vatnaliljanna, dómarinn lét leikinn halda áfram og boltinn skoppaði á Pelle sem skoraði með góðu skoti utarlega úr teignum. Pelle fagnaði innilega og reif sig úr treyjunni að hætti danskra og átti dómari leiksins fullt í fangi með að hlaupa á eftir honum um völlinn til þess að veifa gula spjaldinu. 

Skömmu síðar átti Tommi fyrirgjöf frá vinstri sem strauk ennin á Ingimari og Harta en hvorugum tókst að stýra boltanum að marki. 

Á 90. mínútu kórónaði dómari leiksins frammistöðu sína með því að reka Dolla af velli en Flóamaðurinn fíngerði safnaði sér tveimur gulum spjöldum á þremur mínútum og var seinna spjaldið ákaflega umdeilt. 

Niðurstaðan 1-1 jafntefli sem heilt yfir verða að teljast viðunandi úrslit fyrir Árborgarliðið sem var ákaflega slakt í fyrri hálfleik en bjargaði andlitinu í seinni hálfleik.

Hvað vilt þú segja ?

Færðu inn athugasemd

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Þú mátt nota þessi HTML efnisorð og eiginleika: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <strike> <strong>