Afríka – Árborg 0-4 (0-2)

Tommi átti ágæta innkomu. arborgfc.net/GK

Tommi skoraði gott mark. arborgfc.net/GK

Árborg heimsótti Afríku á Leiknisvöll í Breiðholti á skírdag. Þennan dag minnast kristnir menn þess að Jesú þvoði fætur lærisveina sinna fyrir síðustu kvöldmáltíðina. Það var ekki boðið upp á neinn fótþvott á Leiknisvellinum en Árborg hélt þó markinu skínandi hreinu, þar sem þjálfarinn sjálfur stóð á milli stanganna.

Fyrstu tuttugu mínútur leiksins voru bæði lið að reyna að fóta sig í slæmu veðrinu og var boltinn mikið utan vallar og gekk afar hægt.

Það var ekki fyrr en á 35. mínútu sem Árborg tók boltann niður og spilaði honum vel frá vörn í gegnum allt liðið sem endaði með því að Tómas Kjartansson fann Hartmann Antonsson úti á hægri kanti. Hartmann komst upp að endalínu og renndi boltanum út á vítateigslínu þar sem fyrirliðinn Ingimar Helgi Finnsson kom aðvífandi og lagði boltann viðstöðulaust með föstu skoti niður í hornið nær.

Eftir þetta héldu Árborgarar boltanum betur og létu hann ganga. Dómarinn var að búa sig undir það að flauta til hálfleiks þegar Tómas Kjartansson tók til sinna ráða. Hann tók boltann við miðju og lék á tvo varnarmenn og skoraði með hnitmiðuðu skoti með vinstri fæti af 20 metra færi. Glæsilegt hjá Tómasi, óverjandi skot og Árborgar með þægilegt forskot í leikhléi, 0-2.

Í seinni hálfleik voru Afríkumenn með vindinn í bakið og reyndu þeir að setja pressu á mark Árborgar án þess þó að valda vörn Árborgar miklum vandræðum. Það var þó þjálfarinn sjálfur Guðjón Bjarni Hálfdánarson sem að bjargaði því sem bjarga varð þegar Afríkumenn tóku fast leikatriði frá vellinum miðjum inní vítateig Árborgar þar sem að Jakob  Björgvin Jakobsson skallaði boltann í átt að eigin marki en Guðjón Bjarni náði á ótrúlegan hátt að blaka boltanum í stöng og bjarga marki. Miðað við lýsingarnar er óhætt að segja að skjálfti sé kominn í markvarðapar liðsins og verður spennandi að sjá hver mun standa á milli stanganna í næsta leik.

Stuttu seinna geystust Árborgarar í sókn sem að endaði með því að Ingimar Helgi plataði varnarmann sem að braut svo klaufalega á honum innan vítateigsins og gat góður dómari leiksins ekki annað en dæmt vítaspyrnu. Á punktinn steig miðvörðurinn Kristján Valur Sigurjónsson og skoraði af fádæma öryggi með fastri spyrnu. Fyrsta deildarbikarmark Kristjáns fyrir Árborg og leikurinn nánast í höfn fyrir Árborg þegar 20 mínútur voru eftir.

Það var svo Hartmann Antonsson sem að veitti Afríku náðarhöggið á 80. mínútu eftir góða fyrirgjöf frá Guðmundi Karli Eiríksyni af hægri kanti.  Leiknum lauk 4-0 og Árborg fór með stigin þrjú yfir Hellisheiðina.

Sigurinn hefði þó reyndar getað orðið stærri því þegar tíu mínútur voru eftir af leiknum kom Hafþór formaður inná fyrir Kristján Val. Taktísk breyting þar sem sóknarþunginn var aukinn en þrátt fyrir að Hafþór hafi leikið á alls oddi þá tókst honum ekki að skora þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.

Þetta var síðasti leikur liðsins í Lengjubikarnum og varð niðurstaðan 2. sætið í riðlinum. Eftir svekkjandi tap í fyrsta leik gegn Skínanda vann Árborg hina leikina örugglega og fékk ekki á sig mark.

Leikskýrsla KSÍ
Frétt sunnlenska.is
Frétt fotbolti.net

 

 

 

 

 

 

Hvað vilt þú segja ?

Færðu inn athugasemd

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Þú mátt nota þessi HTML efnisorð og eiginleika: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <strike> <strong>